Nýja Ísland
11.1.2009 | 17:32
Nýja Ísland verður reyst úr rústum þess gamla. Þetta verður mikið fagnaðarefni fyrir almenning því loksins getum við venjulega saklausa fólkið lifað eðlilegu lífi án þess að eiga á hættu að verða fyrir barðinu á græðgi bankamanna. Okkur verður borgið og allir verða hamingjusamir og hreinir.
Fyrrverandi bankamönnum, útrásarvíkingum og spákaupmönnum (stórum sem smáum) verður gert að ganga með stórt gult dollaramerki í barminum svo við venjulega fólkið getum auðveldlega greint þá sem eru með óhreinar hendur. Hús þeirra og fyrirtæki skuli einnig merkt svo við fólkið getum gert upp við okkur hvort við verslum við aðila sem höfðu hugsanlega hönd í bagga með að fella fjármálakerfi og sjálfsvirðingu Íslands.
Réttindi þeirra merktu skulu ekki jöfn þeirra sem hreinir eru. Ef einhver grunur leikur á misferli eða óhreinu í pokahorninu skal dæma þá aðila og refsa á dómstóli götunnar því eins og allir vita þá er opinberum dómstólum ekki treystandi vegna guls dollaramerkis við innganginn.
Hugsanlega verður nauðsyn að setja upp verndarbúðir eða athvörf fyrr þá merktu, til þess að vernda þá frá reiði almennings að sjálfsögðu, hvað annað? Þar gætu þeir unnið ýmis verk fyrir þjóðina sem þeim hæfir, svo sem reikna gengisvísitölur, afgreiða lán, prufa skófatnað og fleira gagnlegt.
Nýja Ísland verður fyrirmyndarríki sem aðrar þjóðir munu öfunda og reyna að herma eftir, jafnvel biðja um inngöngu í fyrirmyndarríkið algerlega af sjálfdáðum. Nýja Ísland mun sigra heiminn og verða leiðtogi þjóðanna!
góðar stundir,
sá bitri
Vilhjálmur: Ekki rétt að kenna bönkunum um allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.