Framkvæmd frystingar
26.2.2009 | 09:13
Sérstakur saksóknari hefur heimild til að frysta eignir sakborninga á meðan rannsókn sakamála fer fram. Afhverju er þá ekki búið að frysta eignir neins? Það er einfaldlega vegna þess að engin lög virðast hafa verið brotin sem veita heimild til frystingar eigna.
Fólk er ótrúlega þröngsýnt í umræðunni um frystinguna, segja að það ætti bara samt að frysta eignir. Er almenningur upp til hópa svo reiður og þröngsýnn að hann er tilbúinn að refsa hverjum sem er fyrir vandræðin sem þjóðin er komin í, svo lengi sem hann hafi átt pening eða komist í fréttir vegna hrunsins? Við þurfum að velta nokkrum spurningum fyrir okkur áður en við hlaupum af okkur allar fjaðrirnar í þessu fjaðrafoki.
Hvaða skilyrði þurfa þeir að uppfylla sem frysta skal, þ.e. hvernig á að velja í hópinn? Við gætum handtekið alla þá sem áttu meira en 4-6% hlut í bönkunum fyrir hrunið og alla stjórnarmenn og bankastjóra. Á þá líka að handtaka fyrrverandi bankastjóra og fyrrverandi eigendur sem seldu fyrir hrun, hve langt aftur skal fara? Hvað með stóra fjárfesta sem áttu ekkert í bönkunum en tóku stöðu í krónunni eða þá sem seldu allt sitt fyrir hrun og fluttu til útlanda, þeir hafa veikt krónuna verulega, eru þeir ekki sekir líka? Hve langt aftur skal horfa í því? Þetta eru allt erfiðar spurningar sem ég hreinlega get ekki svarað.
Hvaða eignir þeirra skulu frystar? Hús, bíla, bankainnistæður, föt, skartgripi? Hér er hægt að telja endalaust. Er ætlunin að frysta eignir innanlands eða einnig erendis? Ef fara á út fyrir landssteinana þá þarf að athuga hvernig hægt er að finna alla bíla og alla sktartgripi í skúffum í Evrópu og annarsstaðar í eigu Íslendinga. Á að frysta eignir maka og barna þeirra líka? Systkina líka? Hvað á að gera við fólkið sjálft? Setja það í fangelsi án ákæru og án stöðu sakbornings, þá þarf að fangelsa alla þá sem eiga frystar eignir þar með talið ættingjarnir sem lentu í frystingu. Maður veltir fyrir sér hvað margir yrðu þá handteknir. Ísland gæti verið með nýja leiðandi atvinnugrein, fangagæslu. Tilvalið væri að breyta ókláraða tónlistarhúsinu í fangelsi fyrir auðmenn og ættingja þeirra og vini, Guantanamo Bay norðursins, tákn Reykjavíkur.
Afþvíbara er ekki svar, þrátt fyrir mikla reiði og blóðþorsta þá er ekki nægjanleg rök að segja afþvíbara. Það þarf að fara að lögum, ef auðmönnum tekst að koma peningum undan er alltaf hægt að taka frelsi þeirra - sem verður gert reynist þeir sekir um stórfeld brot. Fyrir þeim flestum tel ég að frelsið sé dýrætara en 1-2 milljarðar á neikvæðum vöxtum í Sviss. Höldum ró okkar í öllu fjaðrafokinu og öndum bara djúpt, það er aldrei gott að verpa eggi af reiði.
kv,
sá bitri
Eignir auðmanna verði kyrrsettar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.